Lög Kristilegs stúdentafélags

1. grein

Félagið heitir Kristilegt stúdentafélag, skammstafað KSF.

2. grein

Félagið byggir á hinum objektíva hjálpræðisgrundvelli sem lagður er af Jesú Kristi með friðþægingu hans fyrir syndir vorar og upprisu hans oss til réttlætingar samkvæmt Heilagri ritningu og játningarritum Evangelísk-Lútherskar kirkju.

3. grein

Takmark félagsins er:

a) Að sameina trúaða stúdenta og aðra trúaða einstaklinga á aldrinum 20-30 ára til þess að styrkja og glæða trúarlíf þeirra.

b) Að vinna aðra fyrir Jesúm Krist.

4. grein

a) Félagsmenn geta orðið allir þeir, sem lokið hafa námi í samræmdum framhaldsskóla eða eru á aldrinum 20 – 30 ára, og játast undir 2. og 3. grein.

b) Menn úr öðrum kirkjudeildum (sbr. grein 2) geta einnig orðið félagsmenn, ef þeir skuldbinda sig til þess að gera engar tilraunir til þess að útbreiða sérkenningar kirkjudeildar sinnar í nafni félagsins, eða innan þess.

c) Stjórn félagsins er heimilt að halda félagsmönnum á félagaskrá sem styrktaraðilum, eftir að þeir ná 31 árs aldri.

d) Brjóti einhver félagsmaður lög þessi eða breyti gegn anda félagsins á alvarlegan hátt, getur stjórnin vísað honum úr félaginu.

5. grein

a) Stjórn félagsins skipa 5 félagsmenn.

b) Í stjórn félagsins mega aðeins vera persónulega kristnir menn.

c) Stjórnin sér um framkvæmdir á gjörðum félagsins. Hún skal kjósa sér formann og skipta að öllu leyti með sér verkum eftir þörfum. Aðra liði starfsins sjái stjórnin um sameiginlega. Ákvarðanir hennar eru því aðeins gildar að meirihluti stjórnar samþykki þær.

d) Stjórn skal halda uppfærða félagaskrá.

e) Stjórninni er heimilt að kalla félagsmenn til sérstakra starfa á vegum félagsins.

6. grein

a) Aðalfundur skal haldinn í apríl. Skal boða til hans með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir sem hafa verið skráðir félagsmenn frá áramótunum áður en aðalfundur fer fram, og sem uppfylla skilyrði 4.gr. a)

b) Tveggja manna kjörnefnd skal skipuð eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund. Annar fulltrúinn skal skipaður af stjórn Kristilegs stúdentafélags en hinn af stjórn Kristilegu skólahreyfingarinnar. Nefndarmenn séu utan stjórnar Kristilegs stúdentafélags.

c) Eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund skal stjórn taka saman og hafa aðgengilegan fyrir félagsmenn, lista yfir þá félagsmenn sem atkvæðisrétt hafa á næsta aðalfundi.

d) Telji einhver sem ekki er á lista stjórnar yfir atkvæðisbæra félagsmenn sig eiga rétt á að vera á þeim lista, skal hann eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund bera upp erindi þess efnis við stjórn. Stjórn skal eigi síðar en viku fyrir aðalfund bregðast við með því að taka viðkomandi inn á listann eða synja erindinu með rökstuðningi.

e) Kjörnefnd tekur á móti uppástungum félagsmanna um menn á kjörlista. Kjörnefnd er skylt að bjóða þeim félagsmönnum sæti á kjörlista sem 3 félagsmenn mæla með.

f) Kjörnefnd stýrir stjórnarkjöri á aðalfundi. Skal hún gæta þess að ákvæðum laga þessara hafi verið framfylgt. Séu fleiri en 5 í kjöri til stjórnar, eða lagabreytingatillögur liggja fyrir fundinum, en ekki liggur fyrir listi yfir atkvæðisbæra félagsmenn þá skal boða aðalfund að nýju.

g) Kosnir skulu af kjörlista 5 manns í stjórn til eins árs í senn. Kosning sé skrifleg bjóði fleiri en fimm sig fram.

h) Lagabreytingartillögur skulu afhentar stjórn félagsins, eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund, og kynntar á félagsfundi a.m.k. viku fyrir aðalfund. Þær skulu studdar af a.m.k. 3 félagsmönnum.

7. grein

Á aðalfundi leggi stjórnin fram ársskýrslu sína og endurskoðaða ársreikninga. Aðalfundargjörð skal rituð í sérstaka bók og lesin upp til samþykktar á næsta félagsfundi og undirrituð af ritara og formanni. Aðalfundur kýs endurskoðanda og annan til vara .Aðalfundur ákveður árgjald hvers starfsárs.

8. grein

Félagið tekur aldrei flokkspólitíska afstöðu og skiptir sér hvorki af pólitískum skoðunum félagsmanna sinna né annarra.

9. grein

a) Félagið er aðili að Kristilegu skólahreyfingunni.

b) Verði félagið lagt niður skulu eignir þess faldar í vörslu Kristilegu skólahreyfingarinnar þar til nýtt félag á sama grundvelli hefur verið stofnað. Hafi slíkt félag ekki verið stofnað innan þriggja ára skulu eignir félagsins verða eignir Kristilegu skólahreyfingarinnar.

10. grein

Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi, og þá með 4/5 greiddra atkvæða. Þó má ekki breyta grein 2,3 b) og 10 né öðru í ósamræmi við þær.